Innlent

Meirihlutinn í Árborg starfar áfram

Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg.
Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg.
„Við þurftum að hrista okkur aðeins betur saman,“ segir Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg. Búið er að leysa ágreiningsmál innan meirihlutans sem mun starfa áfram.

Í bæjarstjórnarkosningunum á síðasta ári fékk Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í Árborg eða fimm bæjarfulltrúa. Samfylkingin fékk tvo bæjarfulltrúa kjörna, Framsóknarflokkurinn einn og VG einn.  Samkvæmt Eyjunni hefur verið afar stirt á milli Elfu Daggar og Eyþórs Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu, undanfarið ár. Það varð til þess að Elfa Dögg sendi félögum sínum í meirhlutanum bréf fyrir nokkrum dögum þar sem meðal annars kemur fram að vegna samskiptaörðugleika og persónulegra átaka treysti hún sér ekki til að starfa með þeim áfram í meirihluta. Eyjan fullyrðir að eftir að Elfa Dögg sendi bréfið hafi farið fram óformlegar viðræður á milli hennar og fulltrúa minnihlutans um myndun nýs meirihluta.

Í samtali við Vísi segir Elfa Dögg að um storm í vatnsglasi sé að ræða. Í samstarfi sem þessu sé eðlilegt að upp komi ágreiningur milli fólks. Fulltrúar meirihlutans hafi farið yfir málið og unnið úr því. „Það er búið að kippa því liðinn,“ segir Elfa Dögg. Aðspurð segir hún að meirihlutinn muni starfa saman áfram.

Fyrr í dag sagði Þórdís Eygló Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi VG, í samtali við Vísi ekki hafi fram viðræður um myndun nýs meirihluta. „Þetta er eitthvað sem meirihlutinn þarf að eiga við sjálfan sig,“ sagði Þórdís ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×