Innlent

Fasteignaverð svipað í krónum og í ársbyrjun 2007

Heimir Már Pétursson skrifar
Fasteignaverð er almennt á uppleið og er verð fasteigna nú í krónum talið svipað og það var í upphafi ársins 2007. Heildarmat íbúðarhúsnæðis á landinu hækkar um 9 prósent á næsta ári, en hækkunin er töluvert mismunandi milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu og milli landshluta.

Tæplega 125 þúsund íbúðir eru skráðar á Íslandi og hækkar heildarfasteignamat þeirra á næsta ári úr 2.600 milljörðum í 2.850 milljarða eða um níu prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er misjafnt eftir hverfum hvað fasteignamatið hækkar mikið, en mest er hækkunin hér í vesturbæ Reykjavíkur.

Nánar tiltekið vestan Bræðraborgarstígs þar sem fasteignamatið hækkar um 14,9 prósent á næsta ári, í Hlíðunum um 9,4 prósent, 3,6 prósent í Bryggjuhverfi, í Grafarvogi um 7,9 prósent, 3,9 prósent í neðra Breiðholti, 4,5 prósent í Úlfarsárdal , um 13,9 prósent í Ártúnsholti og Höfðum, 10,4 prósent í vestubæ Kópavogs, um 4,2 prósent í Kórahverfi, lækkar um 0,2 prósent í Akrahverfi í Garðabæ en hækkar um 7,9 prósent í Hafnarfirði.

„Fasteignamarkaðurinn hefur lifnað mikið við og það styrkir mjög mikið grunn fasteignamatsins. Og það er miklu auðveldara að draga upp mynd af því hvert verðið stefnir eftir hrunið. Það voru fyrstu þrjá mánuði ársins 2009 gerðir 800 kaupsamningar á landinu öllu, þeir voru þúsund í fyrra og nú eru þeir orðnir þrettán hundruð. Þannig að þetta er svona stigvaxandi," segir Þorsteinn Arnalds framkvæmdastjóri hjá Þjóðskrá Íslands.

Staðsetning eigna skiptir máli þegar kemur að fasteignamati. Þannig myndi íbúð sem metin er á 20 milljónir í fjölbýli í Grafarvogi norður, kosta 28,6 milljónir hér í suðurhluta Þingholta, en 17,8 milljónir á Völlunum í Hafnarfirði.

Meðaltalshækkun á mati allra fasteigna, íbúðarhúsnæðis sem og atvinnuhúsnæðis á landinu er 6,8 prósent. Hækkunin er hins vegar mismunandi eftir landshlutum.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteignamat að meðaltali um 6,3%, um 4,3 prósent á Suðurnesjum , á Vesturlandi um 9,6%, á

Vestfjörðum um 9,9%, um 11,9% á Norðurland vestra og 9,3 prósent á Norðurland eystra. Minnst er hækkunin á Austurlandi eða

2,8% en á Suðurlandi er meðaltalashækkunin 9,9%.

Kaupsamningar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru þrettán hundruð, en þeir voru um átta hundruð á fyrsta ársfjórðungi 2009 og því er fasteignamarkaðurinn að hressast.

„Við erum auðvitað að tala um krónur sem hafa rýrnað töluvert mikið. En við erum kannski stödd, ef við tölum um íslenskar krónur, á sama verðlagi og í byrjun árs 2007," segir Þorsteinn Arnalds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×