Innlent

Heyskortur blasir við í vetur

Mynd//Pjetur
Heyskortur blasir við víða á Norðausturlandi í vetur þar sem grasspretta er mun seinni en í meðalári og tún eru sumstaðar kalin. Ráðgjafaþjónusta bænda ætlar að miðla upplýsingum um slægjumöguleika annarsstaðar.

Hitastigið á þessum svæðum hefur verið aðeins tvær til fjórar gráður að deginum og oft næturfrost undanfarnar vikur og norðanáttir ríkt með rigningu, slyddu eða snjókomu.

Heyskapur er því ekki hafinn og hefst óvenju seint í sumar. Bændur hafa líka þurft að gefa búpeningi hey óvenju langt fram á vorið, meðal annars þar sem lítið er sprottið í úthögum. Sumstaðar hafa bændur orðið að flytja hey i úthagana til að fóðra skepnurnar. Sumir eru því orðnir heylitlir eða heylausir. Við þetta bætast talsverðar kalskemmdir í túnum á norðaustanverðu landinu, og eru dæmi um að allt að 80 prósent túna séu skemmd.

Bændur geta hinsvegar ekki plægt þau upp til að sá í þau á ný, vegna mikillar bleytu í jarðveginum, þannig að sumstaðar stefnir í heyskort næsta vetur, sem hefur verið nær óþekkt fyrirbæri í mörg ár. Ráðgjafaþjónusatn Búgarður ætlar því að hefja upplýsingamiðlun um skort á slægjum og um bændur, sem eru aflögufærir um hey, eða tún til sláttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×