Innlent

Allt að tveggja ára biðtími eftir talmeinafræðingi

Börn sem þurfa á talþjálfun að halda geta þurft að bíða í allt að tvö ár eftir að komast að. Gífurlegur skortur er á talmeinafræðingum hér á landi. Biðin er sérstaklega löng hjá talmeinafræðingum sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands enda eru þeir örfáir.

Steingrímur Ari Arason.
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að þá sé hægt að telja á fingrum sér. Ástæðuna segir hann vera þá að fleiri hafi ekki sætt sig við þau starfskjör sem í boði séu. Steingrímur segir talmeinafræðinga sækjast eftir betri starfskjörum og að viðræður standi nú yfir um endurskoðun samningsins. Gerir Steingrímur sér vonir um að þeim ljúki á næstu vikum.

Þá segir hann talmeinafræðinga alltof fáa miðað við þörfina hér á landi og að því þurfi að breyta. „Menn hafa verið að leita líka leiða til þess að fjölga þeim, meðal annars með því að bjóða upp á framhaldsnám í talmeinafræðum við Háskóla Íslands."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×