Innlent

Heimalningur í Breiðholti

Boði Logason skrifar
Lambið hefur það gott í góða veðrinu í Breiðholti
Lambið hefur það gott í góða veðrinu í Breiðholti Mynd/SI
„Það lá bara lítið lamb úti í garði hjá mér þegar ég ætlaði að fara vökva blómin áðan," segir Sólveig Ingvarsdóttir, íbúi í Flúðaseli í Reykjavík. Það verður að teljast nokkuð sérstakt að lítið lamb kemur sér fyrir í garði í miðju íbúðarhverfi í Breiðholti um hásumar.

Sólveig segist ekki vita hvaðan lambið kom en það hafi greinilega komið af götunni því það er opið út á götu frá garðinum. „Ég get ekki ímyndað mér hvernig það rataði hingað til mín, mér dettur helst í hug að einhver hafi fengið það úr sveitinni og það hafi sloppið," segir hún en lambið hefur það gott í Breiðholtinu í góða veðrinu. „Það er í góðu ástandi og er mjög gjæft, við erum búin að koma því fyrir á lokuðu svæði," segir Sólveig og um leið heyrir blaðamaður lambið jarma í gegnum símann.

Sólveig vonast til að eigandinn gefi sig fram. „Ég veit ekki hvað ég á að gera við það, okkur dettur helst í hug að koma því í Húsdýragarðinn í Laugardalnum. Það hlýtur einhver að vita söguna á bak við þetta lamb," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×