Innlent

Áfrýjunarnefnd staðfestir dagsektir Samkeppniseftirlitsins

Jóhannes Karl Sveinsson, formaður Áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Jóhannes Karl Sveinsson, formaður Áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti í dag ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að beita Seðlabankann dagsektum vegna vanrækslu á afhendingu gagna og upplýsinga um útlán banka.

Nefndin hafnaði þannig þeirri málsástæðu Seðlabanka að bankinn væri bundinn sérstakri þagnarskyldu sem ekki yrði rofin nema með dómsúrskurði eða sérstöku lagaboði, og sagði í niðurstöðu sinni að í ákvæðum samkeppnislaga væri almenn heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, hvort sem þær upplýsingar teljist almennt til trúnaðarupplýsinga eða ekki. Ákvæðið sem þessa heimild veitti væri sérákvæði gagnvart öðrum þagnarskylduákvæðum sem stjórnvöldum er almennt falið að starfa eftir.

Því var einnig hafnað í úrskurðinum að Samkeppniseftirlitið hafi farið út fyrir valdheimildir sínar og ekki gætt meðalhófs við beitingu dagsektarheimilda þegar Seðlabankinn varð ekki við upplýsingabeiðnum Samkeppniseftirlitsins.

Seðlabanki hafði uppi önnur mótrök við beitingu dagsektanna og var þeim öllum hafnað. Seðlabankinn fær frest til 1. júlí næstkomandi til að veita Samkeppniseftirlitinu þær upplýsingar sem um var beðið og munu dagsektir falla á ef Seðlabankinn verður ekki við beiðninni fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×