Innlent

Öryggi sjúklinga á Akureyri kann að vera ógnað

Ríkisendurskoðun gagnrýnir margt í nýrri útttekt á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Ríkisendurskoðun gagnrýnir margt í nýrri útttekt á Sjúkrahúsinu á Akureyri Mynd úr safni
Læknaskortur á Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur þær afleiðingar að öryggi sjúklinga kann að vera ógnað. Mikilvægt er að landlæknisembættið geri úttekt á öryggi sjúklinga á sjúkrahúsinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um skipulag, stefnu og stjórnun Sjúkrahússins á Akureyri.

Fram kemur að samkvæmt viðhorfskönnun sem Ríkisendurskoðun gerði meðal starfsmanna sjúkrahússins ríkir óánægja með ýmsa þætti í skipulagi og stjórnun þess, meðal annars með starfshætti framkvæmdastjórnar en í henni sitja fjórir æðstu stjórnendur stofnunarinnar. Tekið skal fram að auk könnunarinnar byggði úttekt Ríkisendurskoðunar meðal annars á viðtölum við fyrrverandi og núverandi starfsmenn og greiningu margvíslegra gagna.

Ríkisendurskoðun leggur til að skipulag Sjúkrahússins á Akureyri verði einfaldað og framkvæmdastjórn þess styrkt. Einnig þurfi að móta nýja stefnu fyrir sjúkrahúsið og ákveða framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi.

Starfsemi sjúkrahússins fer nú fram í 38 einingum og eru millistjórnendur um 50 en starfsmenn samtals um 600. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að fækka starfseiningum með því að sameina þær. Stofna ætti nokkur kjarnasvið og setja framkvæmdastjóra yfir hvert þeirra sem sæti jafnframt í framkvæmdastjórn sjúkarhússins. Með þessu móti telur Ríkisendurskoðun að unnt sé að styrkja framkvæmdastjórnina.  Einnig sé mikilvægt að hún verði sýnilegri starfsmönnum en verið hefur og bregðist hratt við ábendingum og erindum frá þeim.

Ríkisendurskoðun telur að móta þurfi nýja stefnu og framtíðarsýn fyrir sjúkrahúsið með aðgerðaáætlun og árangursmælikvörðum. Þá sé brýnt að velferðarráðneytið ákveði framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi, meðal annars með verkaskiptingu milli heilbrigðisstofnana á svæðinu. Í skýrslunni kemur fram að þegar sé hafin vinna innan sjúkrahússins við að móta nýja stefnu.

Sjá skýrslu Ríkisendurskoðunar í heild sinni á PDF-formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×