Innlent

Hárið sett upp í Hörpunni

Salóme R. Gunnarsdóttir skrifar
Hárið verður fyrsta leiksýningin sem sett er upp í Hörpunni.
Hárið verður fyrsta leiksýningin sem sett er upp í Hörpunni.
Söngleikurinn Hárið, sem sló í gegn á Akureyri um páskana, verður settur upp í Hörpunni í júlí og verður þar með fyrsta leiksýningin sem sett er upp í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.

„Þetta verður hringleikjahús.“ segir Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri sýningarinnar. „Salurinn Norðurljós í Hörpu passar fullkomlega og munu áhorfendur sitja í hring bæði uppi og niðri. Leikhópurinn er ótrúlega spenntur enda er hljóð- og ljósbúnaður í salnum á heimsmælikvarða.“

Það er leikhópurinn Silfurtunglið sem stendur að baki sýningunni, en hann skipar úrval þjóðþekktra Íslendinga. Eyþór Ingi Gunnlaugsson mun fara með aðalhlutverkið, en auk hans munu stíga á svið evróvisionfarinn Matti Matt, Jana María Guðmundsdóttir, Pétur Örn Guðmundsson, Ívar Helgason, Erna Hrönn Ólafsdóttir og Ólöf Jara Skagfjörð. Magni Ásgeirsson, sem fór með hlutverk blökkumannsins Hud á Akureyri, mun ekki geta tekið þátt í sýningunni í Reykjavík og mun Jóhannes Haukur Jóhannesson koma í hans stað.

Jón Gunnar segir mikla stemningu hafa skapast á sýningum. Margir leikhúsgestir hafi klætt sig upp í anda verksins og ófáir tekið upp á því að syngja með. Þá hafi sumir þeirra sem voru smeykir við að þenja raddböndin almennilega safnað kjarki, keypt sér annan miða á sýninguna, og sungið þá hástöfum. Jón Gunnar hvetur leikhúsgesti eindregið til að klæða sig upp og syngja með. „Mæta í fíling. Það kunna svo margir þessi lög, jafnvel án þess að fatta það.“

Hárið verður frumsýnt í Hörpunni þann 7. júlí næstkomandi og er miðasala þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×