Innlent

75 ný störf vegna 200 milljóna frá ríkinu

Mynd úr safni
Sjötíu og fimm ný störf hafa orðið til vegna 200 milljóna króna sem ríkið veitti til að mæta samdrætti vegna kvótaniðurskurðar. Það slagar upp í helming af þeim störfum sem verða til við fyrsta áfanga Helguvíkur.

Það fór þunglega í sjávarbyggðir þegar þorskkvótinn var skertur árið 2007, útgerðirnar töluðu um milljarða tap og sveitarfélög óttuðust tekjumissi. Um haustið tilkynnti ríkisstjórnin að farið yrði í verulegar mótvægisaðgerðir upp á tíu til ellefu milljarða króna. Brot af þeirri upphæð, 200 milljónir króna fóru í að styðja nýsköpun og þróun nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni.

Og nú eru niðurstöður komnar:

„Fyrstu niðurstöður sýna að þessi styrkir hafa skapað 75 ný störf og þetta voru verkefni í sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu," segir Sigríður Elín Þórðardóttir, félagsfræðingur hjá Byggðastofnun.

Störfin eru fjölbreytt og urðu meðal annars til vegna vöruþróunar og markaðssetningar á lýsu, sæbjúgum, bláskel, kúffisk, flugveiðibúnaði, kattamat, kollageni, fiskroði og gærum.  Þá urðu til störf við hönnun og framleiðslu á flísum úr steypu og vegna markaðssetningar á smyrslum og heilsuvörum úr íslenskum jurtum. Rúmlega 250 umsóknir bárust um styrkina - en þeir voru veittir til 76 verkefna. Á móti 200 milljónum ríkisins var eigið framlag styrkþega tæpar 400 milljónir.

Flest þessara 75 starfa urðu til á Vestfjörðum - en til að setja þennan fjölda í samhengi má benda á að samkvæmt heimasíðu Norðuráls er reiknað með að ráða þurfi 200 manns fyrir fyrsta áfanga álvers í Helguvík. Almennt starfa 450-500 manns í álverunum á Íslandi - fyrir utan afleidd störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×