Sport

Mike Powell hvetur Usain Bolt til að stökkva fáránlega langt

Usain Bolt er fljótasti maður heims en hann reyndi fyrir sér í golfi í heimsókn sinni í Evrópu á dögunum. Mike Powell heimsmethafi í langstökki vill að Bolt reyni við langstökkið eftir ÓL í London 2012.
Usain Bolt er fljótasti maður heims en hann reyndi fyrir sér í golfi í heimsókn sinni í Evrópu á dögunum. Mike Powell heimsmethafi í langstökki vill að Bolt reyni við langstökkið eftir ÓL í London 2012. AFP
Mike Powell, heimsmethafi í langstökki karla, segir að Jamaíkumaðurinn Usain Bolt sem á heimsmetin í 100 og 200 metra spretthlaupum hafi alla burði til þess að bæta heimsmetið í langstökki. Powell telur að Bolt eigi að gera tilraunir í langstökkinu eftir Ólympíuleikana 2012.

Bandaríkjamaðurinn Powell bætti met landa síns Bob Beamons á heimsmeistaramótinu í Japan árið 1991 en það met hafðið staðið allt frá árinu 1968 á ÓL í Mexíkó. Met Powells er 8,95 metrar og það hefur staðið af sér allar atlögur í tvo áratugi.

„Ég talaði við þjálfara hans og foreldra á HM í Berlín árið 2009. Ég sagði einfaldlega að hann gæti stokkið langt í langstökkinu. Og þau svöruðu að þetta hefði verið rætt í fjölskyldunni, og þessi möguleiki væri fyrir hendi,“ sagði Powell. Hann er ekki í vafa um að heimsmetið verður í stórhættu ef Bolt byrjar í langstökkinu.

„Hann gæti stokkið fáránlega langt ef hann færi í langstökkið. Það sem þarf í langstökk er mikill hraði og hæð. Hann er með þessa eiginleika og ef hann hefur áhuga og elju til að æfa sig þá er allt hægt,“ bætti Powell við en hann er 47 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×