Innlent

Barnslát: Konan enn á sjúkrahúsi

Andri Ólafsson skrifar
Einhver lagði blómvönd við Hótel Frón í gær til minningar um barnið sem lést.
Einhver lagði blómvönd við Hótel Frón í gær til minningar um barnið sem lést.
Barnið sem fannst látið í ruslagámi við Hótel Frón á Laugardaginn verður krufið í dag. Móðir þess er enn á sjúkrahúsi, en hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald í gær.

Móðirin hefur legið á sjúkrahúsi, síðan komið var með hana þangað fyrir hádegi á laugardaginn, en allt bendir til þess að skömmu áður hafi hún fætt barn sitt á hótelherbergi á Hótel Fróni og komið því síðan fyrir í ruslagámi þar fyrir utan.

Hún leyndi þungun sinni fyrir samstarfsfélögum sínum og fyrrverandi unnusta en það var hann sem ók henni á sjúkrahúsið. Hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald í gær, á spítalanum, þar sem ástand hennar leyfði ekki að hún yrði flutt í Héraðsdóm Reykjavíkur.

Barn konunnar var fullburða drengur. Krufningin í dag á að leiða í ljós hvort hann hafi látist fyrir eða eftir að honum var komið fyrir í ruslagáminum.

Að öðru leyti heldur rannsókn lögreglu áfram og skýrslur verða teknar af vitnum í dag.

Í hegningarlögum segir að ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má, að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands, sem hún hefur komist í við fæðinguna, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.

Þá segir einnig að láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×