Veður

Hægt veður í dag en myndar­leg lægð á leiðinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Kirkjubæjarklaustri þar sem einna besta veðrinu er spáð í dag.
Frá Kirkjubæjarklaustri þar sem einna besta veðrinu er spáð í dag. Vísir/Vilhelm

Spáð er hægri vestlægri átt og úrkomulitlu veðri á landinu í dag. Myndarleg og óvenju djúp lægð er hins vegar sögð taka völdin á morgun og næstu daga.

Bjart á að vera um landið suðaustanvert og hiti gæti náð átján gráðum þar í dag. Annars víða lítilsháttar væta af og til og hiti á bilinu átta til fjórtán stig. Vaxandi suðaustanátt er spáð vestanlands í kvöld.

Lægð sem er núna við Hvarf, syðst odda Grænlands, er sögð verða óvenju djúp þegar hún nær inn á Grænlandshaf seinna í dag. Hún valdi stífri suðaustanátt á morgun, einkum suðvestantil með vætu. Fyrir norðan verður áftur á móti bjart veður og hlýtt.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðaustan tíu til fimmtán metrum á sekúndu og úrkomulitlu á morgun. Rigningu er spáð annað kvöld. Heldur á að hlýna í veðri í borginni.

Austlægar átti eiga að vera ríkjandi af völdum lægðarinnar í vikunni og loftmassinn hlýr og rakur. Þannig má reikna með vætu af og til í flestum landshlutum, sérstaklega austanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×