Innlent

Réðust á starfsmann meðferðarheimilis og struku

Samkvæmt upplýsingum Vísis voru unglingsdrengirnir handteknir á gistiheimili á Akureyri í nótt.
Samkvæmt upplýsingum Vísis voru unglingsdrengirnir handteknir á gistiheimili á Akureyri í nótt. Mynd/Pjetur
Fjórir unglingsdrengir réðust á starfsmann á meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði síðastliðinn sunnudag. Því næst læstu þeir starfsmanninn inni, stálu peningum og struku á stolnum bíl. Frá þessu er greint á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að meiðsl starfsmannsins hafi verið minniháttar.

Unglingsdrengirnir sem réðust á starfsmanninn í Háholti eru fæddir 1993 og 1995. Varðstjóri lögreglunnar á Akureyri sagði í samtali við Vísi að drengirnir hafi verið handteknir á gistiheimili á Akureyri í gær eða einum degi eftir að þeir struku. Þangað voru þeir sóttir af lögreglunni á Sauðárkróki. Tveir unglingsdrengjanna voru fluttir á Stuðla í Reykjavík. Að öðru leyti vísaði varðstjórinn á lögregluna á Sauðárkróki.

Meðferðar- og skólaheimilið Háholt er einkarekið á grundvelli þjónustusamnings við Barnaverndarstofu. Tvö slík meðferðarheimili eru hér á landi en hið þriða ríkisrekið.

Samstarf við Fangelsismálastofnun

Í Háholti dvelja 15-18 ára unglingar og eru þeir kallaðir nemendur, samkvæmt heimasíðu Barnaverndarstofu. Þeir eiga það það sameiginlegt að eiga við alvarlegan hegðunarvanda að stríða. Nemendur hafa leiðst út í fíkniefnaneyslu, komist í kast við lögin, eiga í vandræðum í skóla og í félagslegum vanda af ýmsu tagi.

Í einstaka tilvikum dvelja nemendur í Háholti sem dæmdir hafa verið til fangavistar. Samkvæmt samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu stendur unglingum til boða að afplána fangelsisdóm í Háholti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×