Innlent

Rúður brotnar í Rima­skóla

Árni Sæberg skrifar
Rúður Rimaskóla urðu fyrir barðinu á spellvirkjum í gærkvöldi.
Rúður Rimaskóla urðu fyrir barðinu á spellvirkjum í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gærkvöldi tilkynning um brothljóð frá Rimaskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að fjöldi rúða í skólanum hafði verið brotinn og einhverju tjónið valdið inni í skólanum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu fyrir gærkvöldið og nóttina.

Þar segir einnig frá tilkynningu um mann sem væri að berja íbúðarhúsnæði að utan og húsráðandi þekkti ekki. Þegar lögregla hafi verið á leið á vettvang hafi húsráðandi hringt aftur á lögregluna og tilkynnt að maðurinn hefði brotið sér leið inn í sameign hússins.

Maðurinn hafi verið handtekinn þegar lögregla kom á vettvang og vistaður í fangaklefa þar til unnt verður að ræða við hann, en hann hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna.

Þá segir frá því að tvær tilkynningar hafi borist um ógnandi og erfiðan mann í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögregla hafi haft upp á manninum hafi komið í ljós að um góðkunningja lögreglu væri að ræða. Vel hafi gengið að ræða við hann og hann hafi þegið far heim til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×