Innlent

Fyrsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi

Líkur eru á að fyrsta fimm stjörnu hótel landsins muni rísa vestan við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu árið 2015. Sex tilboð hafa borist í byggingu þess en tilboðsfresturinn rann út í gær.

Fjöldi innlendra og erlendra fjárfesta sýndu útboðinu mikinn áhuga en að lokum bárust formleg tilboð frá þremur íslenskum og þremur erlendum aðilum. Í útboðsgögnunum fyrir lóðina er kveðið á um að bygging hótelsins verði í samvinnu við alþjóðlega hótelkeðju og er gert ráð fyrir að minnsta kosti 250 herbergjum. Til samanburðar má nefna að Grand Hótel er 314 herbergja og á Hótel Sögu eru herbergin 209 talsins.

Nýja hótelið verður á stærð við tónlistar- og ráðstefnuhúsið sjálft, en það getur að hámarki orðið 28 þúsund fermetrar ofan jarðar, auk tveggja þúsund fermetra bílakjallara.

Krafa er um að hótelið verði fjögurra til fimm stjörnu, en það þykja fréttir þar sem ekkert fimm stjörnuhótel er að finna á Íslandi enn sem komið er.

Situs hf., sem á lóðina, fer nú yfir tilboðin og verður efnt til nánari viðræðna við þá tilboðsgjafa sem þykja vænlegir. Endanleg niðurstaða um hverjir fá byggingarréttinn mun liggja fyrir innan fjögurra til sex vikna. Markmið fyrirtækisins er að hótelrekstur verði hafinn í síðasta lagið vorið 2015.

Fyrirhugað hótel á að rísa vestan við Hörpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×