Innlent

Reiðhjóli stolið úr kjallara Íslandsbanka

Þjófnaður var tilkynntur í Vestmannaeyjum vikunni þegar hjóli var stolið úr geymslu í kjallara Íslandsbanka. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum en vikan var að öðru leyti róleg hjá embættinu.

Talið er að þjófnaðurinn hafi átt sér stað að kvöldi 10. júlí eða aðfaranótt 11. júlí síðastliðinn. Hjólið sem um ræðir er fjallahjól af gerðinni Mongoose og eru þeir sem einhverjar upplýsingar kynnu að hafa um hvar hjólið gæti verið niðurkomið vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar í Vestmannaeyjum í vikunni má nefna þrjú umferðaróhöpp og þrjár sektir fyrir brot á umferðalögum, vegna ólöglegrar lagningar ökutækis annars vegar og notkunar farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri hins vegar.

Í tveimur umferðaróhappanna hafði verið keyrt utan í kyrrstæðar bifreiðar, en þriðja óhappið varð þegar ökumaður missti stjórn á bíl sínum og hafnaði á ljósastaur. Bifreiðin er óökuhæf, en ökumaður og farþegi sluppu við alvarleg meiðsl.

Þá voru eignaspjöll tilkynnt þegar rúða var brotin í Barnaskóla Vestmannaeyja og eitthvað var um pústra við skemmtistaði bæjarins, en engar kærur liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×