Innlent

Vonsvikinn Take That aðdáandi: Hágrátandi stelpur úti um allt

„Ég vildi bara fá að sjá átrúnaðargoðið mitt hann Robbie en, það þarf greinilega að bíða betri tíma,“ segir Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir sem ætlaði ásamt mágkonu sinni að sjá poppstjörnuna Robbie Williams og félaga hans í Take That á tónleikum í Parken í Kaupmannahöfn á laugardagskvöld. Uppselt var á tónleikana en Ingibjörg og mágkona hennar keyptu miðana í nóvember á síðasta ári.

Rétt áður en til stóð að hleypa tónleikargestum inn á leikvanginn komu starfsmenn út og tilkynntu að búið væri að aflýsa tónleikunum. Robbie væri veikur. Síðar var greint frá því að hann hefði fengið matareitrun. Á vef Berlingske Tidende kemur fram að talið sé að söngvarinn hafi orðið veikur eftir að hann borðaði humar á föstudaginn. Talsmaður Take That neitar alfarið að um yfirvarp hafi verið að ræða, en sögusagnir eru um ósætti innan sveitarinnar.

Ingibjörg segir að hún og mágkona hennar hafi beðið spenntar eftir tónleikunum alveg síðan í nóvember. „Svo keypti ég flugmiða til Danmerkur og fór til Århus þar sem mágkona mín á heima. Svo á laugardeginum tókum við rútuna til Kaupmannahafnar. Þar þurftum við að taka lest og taxa niður til Parken. Frekar dýr ferð en það átti að vera þess virði á endanum.“

Eftir að greint var fá því að ekkert yrði af tónleikunum ríkti upplausnarástand fyrir utan Parken. „Allt varð brjálað. Stelpur voru hágrátandi útum allt. Enginn vissi hvað þeir áttu að gera.“

Á vef Berlingske Tidende segir að á sjöunda þúsund manns hafi nú skráð sig á síðu á Facebook þar sem þess er krafist að Take That troði upp í Kaupmannahöfn. Fólki vilji ekki fá endurgreitt. Ekki stendur til að verða við þeirri ósk þar sem Take That er á tónleikarferðalagi og dagskráin þétt. Ingibjörg segir aðdáendurna eiga rétt á nýjum tónleikum. Þeir eigi það einfaldlega skilið.

Af Robbie er það að frétta að hann hefur beðið aðdáendur Take That afsökunar. Fastlega er búist við því að hann verði kominn á ról fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×