Innlent

Sérfræðingur um ökufant: "Lífið er dýrmætt“

Bifhjólamaður var mældur á 237 kílómetra hraða á Garðsvegi á Suðurnesjum um klukkan hálf níu í gærkvöld. Þetta er einhver mesti hraði sem mælst hefur á ökutæki hérlendis til þessa. Sérfræðingur á Umferðarstofu segir ofsaaksturinn vonbrigði.

Ökumaðurinn mældist fyrst á minni hraða þegar hann mætti lögreglubíl sem kom úr gagnstæðri átt. Þá jók hann hraðann og var kominn upp í 237 kílómetra hraða en þá var hann enn að auka hraðann. Ökumaðurinn hvarf lögreglumönnunum sjónum á svipstundu. Hann fannst ekki en lögreglan er nú að skoða hvort hraðamyndavél á Garðsveginum hafi náð myndum af viðkomandi.

Málið minni á upptöku úr myndavél, sem bifhjólamaður spennti framan á sig, en þar sást hraðamælirinn fara hátt upp í 280 kílómetra hraða. Upptakan var á sömu slóðum og hraðakskturinn í gærkvöld. Tiltekinn maður lá þá undir grun, en sönnunargögn reyndust ekki nægilega haldgóð til að sakfella hann.

Sigurður Helgason, sérfræðingur hjá Umferðarstofu, segir málið alvarlegt. „Ætli það sé ekki tvennt. Það er annars vegar vonbrigði og hins vegar áhyggjur af því að það er stöðugt verið að reyna að koma skilaboðum til fólks um það hvað hraðinn getur verið skelfilega hættulegur og hefur kostað mörg mannslíf. Ég tala nú ekki um á bifhjóli. Sá sem er á bifhjóli er mun verr varinn en sá sem er á bíl."

Hann segir ekki þurfa nema eitthvað smátt á veginum til að valda alvarlegu slysi. „Það má ekkert út af bregða."

Sigurður biður því bifhjólamenn aðeins að hafa eitt hugfast. „Lífið er dýrmætt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×