Innlent

Millistjórnendur launahærri en bankastjórinn

Undirmenn bankastjóra Landsbankans eru með þriðjungi hærri mánaðarlaun en hann. Bankasýsla ríkisins hefur gert athugasemdir við fjármálaráðuneytið vegna lágra launa bankastjórans.

Framkvæmdastjórn Landsbankans sér um daglegan rekstur, en í henni sitja átta framkvæmdastjórar sem eru beinir undirmenn bankastjórans Steinþórs Pálssonar.

Allir þeirra eru með mun hærri laun en bankastjórinn sjálfur. Samkvæmt síðasta ársreikningi bankans fengu þeir greidda eina og hálfa milljón króna á mánuði í laun og hlunnindi, en það er rúmum þriðjungi meira en 1,1 milljónin sem bankastjórinn fær.

Þessi laun bankastjórans eru ákvörðuð af kjararáði, en þar hefur sú stefna verið mörkuð að enginn fái betur greitt en forsætisráðherra.

Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut hins opinbera í bankanum, gerir athugasemdir við fyrirkomulagið í ársskýrslu sinni og segir að það geti reynst óheppilegt í samkeppnisrekstri. Þá varar bankasýslan við þeirri tilhneigingu að sérreglur eigi að gilda um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu; það geti komið niður á verðmæti fyrirtækjanna og skerði þannig almannahagsmuni.

Bankasýslan hefur jafnframt gert athugasemdir við fjármálaráðuneytið, en það telur laun Steinþórs ekki samræmast eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem fram kemur að laun stjórnenda skuli standast samanburð við einkageirann, án þess að vera leiðandi.

Bankasýslan telur launin ekki standast samanburð, en eins og við sjáum hér eru bankastjóralaunin í Landsbankanum mun lakari en þær 2,6 milljónir sem Birna Einarsdóttir fær mánaðarlega hjá Íslandsbanka og 2,9 milljónirnar sem Höskuldur Ólafsson fær hjá Arion banka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×