Innlent

Stjórnlagaráð leggur fram drög að nýrri stjórnarskrá

Frá setningu Stjórnlagaráðs þann 6. apríl síðastliðinn.
Frá setningu Stjórnlagaráðs þann 6. apríl síðastliðinn. Mynd/GVA
Stjórnlagaráð hefur lagt fram fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá á grundvelli svokallaðs

áfangaskjals. Nú taka við umræður um breytingartillögur á ráðsfundum og má því gera ráð fyrir því að frumvarpið taki nokkrum breytingum næstu daga, en stefnt er að því að verkinu verði skilað til forseta Alþingis þann 29. júlí næstkomandi.

Sakvæmt drögunum mun stjórnvöldum til að mynda bera skylda til að tryggja óheftan aðgang að internetinu, verði þau samþykkt, en ákvæði 62. gr. núverandi stjórnarskrár, sem tiltekur að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, er hinsvegar hvergi að finna.

Þá mun forseti Íslands ekki geta setið lengur en þrjú kjörtímabil, fimmtán prósent kjósenda munu geta lagt fram frumvarp á Alþingi eða kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingmál, og atkvæði kjósenda alls staðar á landinu koma til með að vega jafnt.

Ekki mega vera fleiri en tíu ráðherrar í ríkisstjórn og verður ráðherrum gert að víkja úr þingsæti.

Í sérstökum kafla um náttúruauðlindir Íslands eru auðlindir skilgreindar sem eign þjóðarinnar og skýrt tekið fram að enginn geti fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota.

Drögin hafa verið birt á vef ráðsins, en sem fyrr segir er stefnt að því að skila verkinu til forseta Alþingis í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×