Innlent

Ökumaður fæddur 1992 á ofsahraða

Mynd úr safni
Tuttugu og sjö ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku, tuttugu og einn karl og sex konur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Einn þeirra var á 102 km/klst á leið sinni yfir brúna yfir Ytri Rangá við Hellu en þar er 50 km/klst. Annar var á 121 km/klst hraða á 70 km/klst kafla sem er á Suðurlandsvegi frá Lyngási að brekkubrún við Trésmiðjuna Rangá, skammt frá Hellu.

Sá sem hraðast ók var á 155 km/klst hraða við Ytri Mókeldu austan við Þingborg en þar er 90 km/klst hámarkshraði. Sá var ekki kominn með fullnaðar ökuskírteini og var settur í akstursbann á grundvelli punkta. Hann á von á 140 þúsund króna sekt og tveggja mánaða sviptingu auk þriggja punkta í ökuferilsskrá. Þá þarf hann að sækja sérstakt námskeið hjá ökuskóla fyrir þá sem settir eru í akstursbann.

Hann var jafnframt annar tveggja ökumanna sem fæddir eru 1992 og kærðir voru fyrir að aka of hratt og eru þeir yngstir í hópi þeirra sem kærðir voru. Elsti karlinn sem ók of hratt er fæddur 1951 en elsta konan 1964.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×