Innlent

Nýja brúin boðin út í haust

LVP skrifar
Fyrsti bíllinn ók yfir brúna í gær. Mynd/ JMG
Fyrsti bíllinn ók yfir brúna í gær. Mynd/ JMG
Vonast er til að hægt verði að bjóða út nýju brúna yfir Múlahvísl í haust en hún verður sterkbyggðari en sú sem hlaupið í ánni hreif með sér. Töluverð umferð hefur verið yfir bráðabirgðabrúna frá því umferð var hleypt á hana í gær. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir umferðina hafa gengið vel.

„Hún hefur gengið bara alveg frábærlega. Það hafa engar uppákomur verið og umferð flotið í báðar áttir hægt og rólega eins og við höfðum vonast til. Fólk tekur tillit til aðstæðna og lækkar hraða og tekur tillit til þeirra sem á móti koma því brúin er einbreið," segir Hreinn.

Hreinn segir að töluvert mikil umferð hafi verið í gær, sennilegast á bilinu 1000 - 1500 bílar, og von sé á jafnvel enn meiri umferð í dag. Hreinn segir að endanlegur kostnaður við bráðabirgðabrúna liggi ekki fyrir. Hann telur að sá kostnaður hlaupi á tugum milljóna.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það fagnaðarefni hve hratt og vel hafi gengið að reisa bráðabirgðabrúna. Þá hafi selflutningar skipt sköpum, þannig að ferðaþjónustan hafi ekki farið eins illa út úr hruni brúarinnar og stefndi í fyrst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×