Innlent

Orkuveitan auglýsir Minjasafnið til sölu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að til standi að selja eignir fyrir 10 milljarða.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að til standi að selja eignir fyrir 10 milljarða.
Orkuveitan hefur hafið söluferli á fasteignum sem í hennar eigu eru. Salan er liður í því að létta á skuldastöðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Í Fréttablaðinu í gær er auglýst rúmlega 1600 fermetra eign á Rafstöðvavegi í Elliðaárdal til sölu. Þar er Minjasafn Orkuveitunnar til húsa. Orkuveitan hefur líka sett jarðirnar Hvamm og Hvammsvík til sölu.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að talsvert hafi verið spurst fyrir um þessar eignir áður en þær hafi verið formlega auglýstar. Orkuveitan geri sér því vonir um að þau tilboð sem berist standi undir væntingum.

Hann segir að eignasala skipti töluverðu máli í þeirri áætlun að bæta skuldastöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Til standi að selja eignir fyrir allt að 10 milljarða króna í þeirri aðgerðaráætlun sem Orkuveitan hafi sett sér.

Auk jarðanna sem þegar hafa verið settar á sölu hefur Orkuveitan þegar selt smærri fasteignir í Borgarfirði og uppi í Mosfellsdal sem voru auglýstar síðasta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×