Innlent

Auglýsir eftir sérsmíðuðu fjölskyldugrilli

Boði Logason skrifar
Fjölskyldugrillið. Þeir sem hafa séð grillið eru beðnir um að hafa samband við Lilju.
Fjölskyldugrillið. Þeir sem hafa séð grillið eru beðnir um að hafa samband við Lilju. Mynd/Lilja Rós
„Fjölskyldugrillinu okkar var stolið og við erum bara í rusli yfir því," segir Lilja Rós Sigurðardóttir sem hefur auglýst eftir grilli á Facebook síðu sinni síðustu daga.

Þegar Lilja kom upp í sumarbústaðinn á Vatnsenda á sunnudaginn ásamt fjölskyldu sinni var búið að stela stóru stál grilli sem hefur verið notað í fjölda ára af fjölskyldu hennar. „Pabbi var að fara hitta tengdaforeldra bróður míns í fyrsta skiptið og við gátum ekki grillað - við vorum bara í sjokki." Fjölskyldan grillaði síðast á grillinu á föstudaginn svo hún telur að því hafi verið stolið á föstudagskvöldið eða á laugardagskvöldið.

Grillið er ekkert venjulegt grill því það er sérsmíðað af föður hennar, sem er reyndar hættur að vinna í dag, en hann vann í stálsmiðju hér á árum áður. „Þetta er bara stóra grillið okkar sem hefur verið notað mikið. Við komum alveg þremur lærum á grillið ef þess þarf," segir hún en eins og áður segir er grillið mjög stórt.

Hún segir að engu öðru hafi verið stolið úr bústaðnum en grillið stóð á lóð bústaðarins. „Málið er að þeir gengu alveg rosalega vel um. Þegar við grillum þá setjum við álpappír undir kolin og þjófarnir hafa brotið álpappírinn saman og lagt hann til hliðar svo hann fyki ekki. Svo settu þeir bjórdós, sem var í grillinu, inn í kamínuna sem er upp í bústað í staðinn fyrir að henda henni í burtu."

Lilja biðlar til þeirra sem vita um grillið eða hafa séð það að hafa samband við sig í síma 694-9663. „Þetta grill skiptir okkur miklu máli enda er ekki hægt að kaupa annað," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×