Handbolti

Ólafur Guðmundsson lánaður til Nordsjælland

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur og félagar í FH fagna Íslandsmeistartitlinum á síðasta tímabili
Ólafur og félagar í FH fagna Íslandsmeistartitlinum á síðasta tímabili
Handknattleikskappinn Ólafur Guðmundsson hefur verið lánaður til danska félagsins Nordsjælland og leikur með liðinu á næsta tímabili. Ólafur er samningsbundinn dönsku meisturunum AG Kaupmannahöfn.

Þetta kemur fram á heimasíðu Nordsjælland. Þar er fjallað um ánægjulegt samstarf félagsins við AG á undanförnum árum. Ólafur leysir annan lánsmann af hólmi, Mads Larsen, sem snýr aftur til Kaupmannahafnar og leikur með AG á næsta tímabili.

„Ég er virkilega ánægður að hafa fengið leikmann á borð við Ólaf til félagsins. Ég er viss um að hann mun fylla í skarðið sem Mads skilur eftir sig og á eftir að verða í aðalhlutverki hjá okkur og í deildinni á næsta tímabili," sagði Kristan Kristensen þjálfari Nordsjælland.

Á heimasíðu Nordsjælland kemur fram að Ólafur muni æfa með AG þegar færi gefist líkt og var tilfellið með Mads Larsen. Ólafur samdi við AG fyrir ári en var lánaður til FH á síðasta tímabili. Hann var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×