Afturelding fjarlægðist fallbaráttuna í Pepsi-deild kvenna í fótbolta með öðrum deildarsigri sínum í röð þegar liðið vann 2-1 sigur á spútnikliði ÍBV í Mosfellsbænum í kvöld.
Íris Dóra Snorradóttir, 20 ára lánsmaður úr Fylki, skoraði sigurmarkið en hún hefur skorað í tveimur fyrstu deildarleikjum sínum með liðinu. Vaila Barsley kom Aftureldingu í 1-0 en Vesna Smiljkovic jafnaði fyrir ÍBV-liðið.
Afturelding vann 3-0 sigur á KR í síðasta deildarleik og stóð svo í Íslands- og bikarmeisturum Vals í undanúrslitum bikarsins á föstudaginn. Afturelding fékk góða liðstyrk á dögunum og það er heldur betur að skila sínu.
Eyjaliðið er að missa að lestinni í toppbaráttunni en eftir þetta tap eru nýliðarnir tíu stigum á eftir toppliði Stjörnunnar.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.
Afturelding vann óvæntan sigur á Eyjakonum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
