Innlent

Kvikmyndagerðarmenn hitta kennara sinn eftir 25 ára hlé

Það verða fagnaðarfundir þegar fimm starfandi íslenskir kvikmyndagerðarmenn hitta kennara sinn frá Bandaríkjunum eftir aldarfjórðungs hlé á mánudaginn kemur.

Kennarinn sem hér um ræðir er bandaríski leikstjórinn og listamaðurinn Lynn Marie Kirby sem kennt hefur kvikmyndalist við California College of the Arts undanfarna þrjá áratugi og gerir enn. Hún mun verða viðstödd sýningu sína Aska og flugmiðar í Bíó Paradís á mánudagskvöld.

Fimm starfandi kvikmyndagerðarmenn hér á landi hafa lært hjá Lynn Marie Kirby en þeir eru leikstjórarnir Þorfinnur Guðnason, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Kári Schram og Þorgeir Guðmundsson auk Sigurðar Matthíassonar kvikmyndatökumanns hjá True North. Munu þau hitta Kirby fyrir sýningu hennar.

Lynn Marie Kirby er ein af frumkvöðlum bandarískra framúrstefnuhöfunda sem kenndir eru við svokallaðan San Francisco skóla á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Þá má geta þess að Þorfinnur Guðnason vinnur nú að gerð stuttmyndar í samvinnu við Lynn Marie Kirby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×