Samkvæmt landhelgisgæslu Japans stendur til að ákæra Watson fyrir að hafa verið vitorðsmaður í árás á skipverja Shonan Maru, japansks hvalveiðiskips árið 2010. Aðgerðarsinninn Peter Bethune, sem var þá meðlimur í samtökum Watsons Sea Shepherd, braust um borð í bátinn og ætlaði að taka skipstjórann fastann eftir að hafa siglt spíttbát utan í Shonan Maru.
Bethune var sjálfur tekinn fastur af hvalveiðimönnum um borð og dæmdur til tveggja ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Alþjóðleg handtökuskipun á hendur Watson sem vitorðsmanni var gefin út 2012 og er enn virk.
Samkvæmt umfjöllun Guardian er refsiramminn fyrir slíkt brot er þriggja til fimmtán ára fangelsi og hundrað til fimm hundruð þúsund jena sekt.
Þar kemur einnig fram að formaður franska hluta Sea Shepherd hafi heimsótt Watson í Nuuk þar sem hann sætir gæsluvarðhaldi á mánudaginn. Watson kveðst vera í góðu standi og iðrast einskis.