Handbolti

Íslandsmeisturum Vals boðið á sterkt alþjóðlegt mót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna verða meðal þátttakenda á sterku æfingamóti í Tékklandi í lok ágúst.  Valsstúlkum var boðið að taka þátt í tveimur mótum á svipuðum tíma og ákváðu að fara til Tékklands en afþakka boð frá þýska félaginu Vfl Oldenburg.

Mótið í Tékklandi fer fram dagana 24.-28.ágúst og þar taka þátt auk Vals HC Zlin frá Tékklandi, CMS Bukaresti frá Rúmeníu, HC Lada Togljatti frá Rússlandi og Team Tvis Holstebro frá Danmörku.  Með danska liðinu leika einmitt landsliðskonurnar Rut Jónsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir.  Mótið er mjög sterkt og þátttökuboðið er mikil viðurkenning fyrir kvennalið Vals og íslenskan kvennahandknattleik.

Lið Íslandsmeistaranna hefur tekið miklum breytingum nú í sumar; sex leikmenn sem léku með liðinu á síðustu leiktíð eru horfnir á braut og sá sjöundi, Hildigunnur Einarsdóttir, verður frá vegna meiðsla fram að áramótum í það minnsta.  Maður kemur í manns stað, fimm nýir leikmenn eru gengnir til liðs við Val og breytingarnar lækka meðalaldur liðsins um þrjú ár, úr rúmum 27 árum í 24.

Leikmenn sem eru farnir og/eða verða ekki með:  Íris Ásta Pétursdóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Rebekka Rut Skúladóttir, Camilla Transel, Anett Köbli, Kristín Guðmundsdóttir.

Nýir leikmenn Vals eru: Þorgerður Anna Atladóttir, Heiðdís Guðmundsdóttir, Hildur Marín Andrésdóttir, Þórunn Friðriksdóttir og Nataly Sæunn Valencia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×