Innlent

"Maður á ekki að þurfa berjast fyrir sannleikanum “

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir upplifir fyrst nú að kirkja sé að taka ábyrgð á því hvernig komið var fram við hana þegar hún sakaði Ólaf Skúlason, fyrrverandi biskup, um kynferðisbrot. Hún segist færast nær því að taka kirkjuna aftur í sátt.

Rannsóknarnefnd kirkjuþings komst að þeirri niðurstöðu í byrjun sumars að ýmislegt hafi farið úrskeiðis þegar fjórar konur leituðu til kirkjunnar vegna áskana um kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, á hendur þeim. Nefnd á vegum kirkjuþings hefur síðan fylgst eftir ábendingum sem komu fram í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar. Liður í því hefur verið að ná sátt við konurnar fjórar. Samkomulag virðist nú vera að nást og verður líklega birt á morgun.

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, ein af konunum segir það gleðiefni. „Mér finnst það bara gífurlegur léttir og bara mikil gleði," segir hún.

Í samkomulaginu felst að kirkjan biðst afsökunar á þeim móttökum sem konurnar fengu auk þess sem þeim eru boðnar sanngirnisbætur, sem verða líklega nokkrar milljónir. Sigrún Pálína segir bæturnar skipta litlu máli.

„Það sem ég hef allan tíman verið upptekin af, það er að kirkjan verði heil. Og að við getum haft kirkjuna sem skjól og ég vona fyrst og fremst að það geti orðið. Peningar skipta ekki máli í þessu samhengi, þrjátíu og þrjú ár er ekki hægt að gera upp í peningum," segir hún.

Hún upplifir nú fyrst að kirkja sé að taka ábyrgð á málinu

„Ef þetta gengur eftir á morgun, sem ég vona, upplifi ég að kirkjan sé að taka ábyrgðina á þessum málum."

Konurnar munu einnig koma að umbótatillögum sem nefndin leggur fyrir kirkju þing í haust. Sigrún Pálína segir mikilvægt að þeim sem lenda í hennar aðstöðu sé trúað.

„Maður á ekki að þurfa berjast fyrir sannleikanum á þennan hátt," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×