Innlent

Hanna Birna: Óvissa, óöryggi og óstjórn í kringum fjármálin

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki skilað þriggja ára fjárhagsáætlun eins og lög gera ráð fyrir. Innanríkisráðuneytið hefur heimild til að beita sveitarfélagið sektum vegna verulegrar vanrækslu á skilum.

Samkvæmt sveitastjórnarlögum á að skila þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál borgarinnar innan tveggja mánaða frá afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem er um miðjan febrúar síðastliðinn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir segir töfina óviðunandi. „Hún ber vott um óvissu, óöryggi og ákveðna óstjórn í kringnum fjármálin og þá hefur minnihlutinn fá önnur ráð en að óska eftir að málið verði tekið upp á vettvangi borgarstjórnar þar sem á að afgreiða það og við höfum beðið um það," segir Hanna Birna.

Meirihlutinn í borginni segir að flutningur á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar og óvissa um fjármögnun málaflokksins valdi drætti á framlagningu áætlunarinnar. Unnið sé nú markvisst að henni og gert ráð fyrir að hún verði tilbúin í september.

Hanna Birna gefur lítið fyrir þessu svör. „Það hefði kannski verið hægt að útskýra nokkurra vikna töf með því, en þetta eru sömu verkefnaflutningar og önnur sveitafélög á landinu standa fyrir og sömu viðfangsefnin og þessi sveitafélög eru að skila. Þau eru öll mun smærri heldur en Reykjavíkurborg og höfuðstaðurinn á að geta haft forystu í þessu eins og svo mörgu öðru, segir hún.

Innanríkisráðuneytið getur lagt álögur svo sem dagsektir á sveitarfélög sem ekki skila fjárhagsáætlunum á tilsettum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur ekkert slíkt verðið ákveðið varðandi málefni Reykjavíkurborgar en ekki er hægt að útiloka að sektum verði beitt dragist skil á áætluninni fram í september eins og meirihlutinn hefur gerir ráð fyrir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×