Viðskipti innlent

Atvinnuleysi meira en í tölum Vinnumálastofnunar

Hafsteinn Hauksson skrifar
Mynd/Pjetur
Langtímaatvinnuleysi hefur tekið stökk á milli ára, þrátt fyrir fullyrðingar um að efnahagsbatinn sé hafinn í landinu. 15.800 manns voru atvinnulausir á öðrum fjórðungi ársins.

Hagstofan birtir í dag tölur um atvinnuleysi á öðrum fjórðungi ársins, en að meðaltali var 8,5 prósent vinnuaflsins án atvinnu á tímabilinu. Það er mun hærra hlutfall en Vinnumálastofnun hefur gefið út, en stofnunin hefur mælt á bilinu 6,7 til 8,1 prósent atvinnuleysi á sama tímabili.

Ástæðan fyrir þessu misræmi er sú að Hagstofan framkvæmir könnun á atvinnuleysi meðal alls almennings, á meðan Vinnumálastofnun byggir eingöngu á því fólki sem er á atvinnuleysisskrá, en mæliaðferð Hagstofunnar er almennt talin áreiðanlegri.

Atvinnuleysi er langmest meðal ungs fólks, en á aldrinum 16 til 24 ára er tæplega einn af hverjum fimm atvinnulaus. Alls bendir könnun Hagstofunnar til að 15.800 manns séu atvinnulausir, en þeim fækkar um 400 frá árinu áður.

Athygli vekur að langtímaatvinnulausum fjölgar hins vegar mikið á milli ára, en allir þeir sem hafa verið án atvinnu í ár eða lengur falla undir þá skilgreiningu. Á öðrum ársfjórðungi voru þeir 3.900 talsins, en það er stökk frá sama tíma á síðasta ári, þegar þeir töldust 2.700.


Tengdar fréttir

Atvinnuleysið 8,5% á öðrum ársfjórðungi

Á öðrum ársfjórðungi 2011 voru að meðaltali 15.800 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 8,5% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 9,5% hjá körlum og 7,4% hjá konum. Frá öðrum ársfjórðungi 2010 til annars ársfjórðungs 2011 fækkaði atvinnulausum um 400 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×