Viðskipti innlent

Hótel­gistinóttum fækkar á lands­vísu

Kjartan Kjartansson skrifar
Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði lítillega á milli ára en herbergjanýting dalaði um 4,3 prósent í júní. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði lítillega á milli ára en herbergjanýting dalaði um 4,3 prósent í júní. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Gistinóttum á hótelum í júní fækkaði um sex prósent á milli ára samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Mesta fækkunin varð á Austurlandi og á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum lítillega.

Samdrátturinn fyrir austan nam 27 prósentum á milli ára en sautján prósentum á Suðurnesjum. Gistnóttum erlendra ferðamanna á hótelum fækkaði um átta prósent frá júní 2023 til júní 2024 en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um fimm prósent. Erlendir ferðamenn áttu um áttatíu prósent gistinótta á hótelum en Íslendingar um fimmtung.

Heildarfjöldi gistinátta á öllum skráðum gististöðum stóð þó um það bil í stað á milli ára, tæp 1,1 milljón. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 77 prósent og fækkaði þeim um prósent frá því í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um fimm prósent.

Framboð hótelherbergja jókst um 1,3 prósent á milli ára í júní en á sama tíma dróst herbergjanýting saman um sex prósentustig á landinu. Nýtingin versnaði alls staðar nema á Norðurlandi. Aftur var mesta breytingin á Austurlandi þar sem nýting herbergja rýrnaði um 20,6 prósent. Á Vesturlandi og Vestfjörðum versnaði hún um tíu prósent.

Athugasemd Hagstofan sendi frá sér rangar tölur um fjölda gistinótta fyrr í dag en dró þær til baka. Leiðrétting var gefin út klukkan 14:00. Hún hafði áhrif á tölur um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu og rúmnýtingu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu. Upphaflega var gistinóttum sagt hafa fjölgað um þrjú prósent á landsvísu og um fimmtung á höfuðborgarsvæðinu.

Frétt Vísis sem byggði á upphaflegu tölunum sem Hagstofan sendi frá sér fyrir hádegi var fjarlægð eftir að tölurnar voru dregnar til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×