Viðskipti innlent

Atvinnuleysið 8,5% á öðrum ársfjórðungi

Á öðrum ársfjórðungi 2011 voru að meðaltali 15.800 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 8,5% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 9,5% hjá körlum og 7,4% hjá konum. Frá öðrum ársfjórðungi 2010 til annars ársfjórðungs 2011 fækkaði atvinnulausum um 400 manns.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að þegar litið sé til aldurs var atvinnuleysi mest meðal fólks á aldrinum 16–24 ára eða 18,6%. Hjá hópnum 24–54 ára var atvinnuleysi 6,4% og 5,4% hjá 55–74 ára. Á öðrum ársfjórðungi 2011 var atvinnuleysi 10,2% á höfuðborgarsvæðinu en 5,3% utan þess.

Af þeim sem voru atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2011 voru að jafnaði 2.800 manns búnir að vera atvinnulausir í 1–2 mánuði eða 18% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu 2.900 manns verið atvinnulausir í 1–2 mánuði á öðrum ársfjórðungi 2010 eða 18,2% atvinnulausra. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á öðrum ársfjórðungi 2011 höfðu um 3.900 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 24,7% atvinnulausra. Árið 2010 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 2.700 manns eða 16,9% atvinnulausra.

Á öðrum ársfjórðungi 2011 voru 1,5% af þeim sem voru á vinnumarkaði atvinnulausir í 1–2 mánuði en 1,6% árið 2010. Langtímaatvinnulausir voru 2,1% vinnuaflsins á öðrum ársfjórðungi 2011 samanborið við 1,5% árið 2010.

Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2011 var 170.000 manns og fjölgar um 500 frá sama tíma ári áður. Á vinnumarkaði voru alls 185.800 manns sem jafngildir 83% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka karla var 85,6% en kvenna 80,3%. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

Á öðrum ársfjórðungi 2010 voru alls 185.700 á vinnumarkaði og atvinnuþátttaka mældist þá 83,3%. Atvinnuþátttaka karla var þá 86,9% og kvenna 79,5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×