Innlent

Þóra ætlar að breyta áherslum á Nýju lífi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þóra Tómasdóttir var ráðin ritstjóri Nýs lífs í dag. Mynd/ Anton.
Þóra Tómasdóttir var ráðin ritstjóri Nýs lífs í dag. Mynd/ Anton.
„Ég er mjög spennt fyrir því að taka við þessu, segir Þóra Tómasdóttir fjölmiðlamaður. Hún var í dag ráðin ritstjóri Nýs lifs. Þóra segir að aðdragandinn að ráðningu hennar hafi verið skammur. Hún býst við að einhverjar breytingar verði gerðar á ritstjórnarstefnunni. En ekki liggi fyrir hverjar þær verða.

„Ég ætla bara að sjá til hverjir verða með mér að skrifa þetta blað. Þetta er allt svo nýtt að ég veit ekkert hvernig blaðið verður en það verður ekkert bara eftir mínu höfði. Það verða fleiri sem taka þær ákvarðanir," segir Þóra.

Þóra hefur vakið athygli sem dagskrárgerðarkonu í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og sem blaðamaður hjá Fréttatímanum, sem er að mörgu leyti ólíkt tímaritinu Nýju lífi. „Þetta er blað með aðeins annan markhóp heldur en ég er vön að skrifa í fyrir Fréttatímann. Þetta er kvennablað, þó það séu karlmenn sem lesa það líka. Þetta blað hefur alltaf verið að flíka flottum konum og ég held áfram að gera það þó það verði kannski breyttar áherslur," segir Þóra.

Þóra segist ekki vita hvenær fyrsta blaðið sem hún ritstýrir kemur út. „Ég er bara ennþá í sumarfríi frá Fréttatímanum og ég þarf bara aðeins að tékka á statusnum," segir Þóra þegar hún er spurð út í málið.


Tengdar fréttir

Þóra Tómasdóttir tekur við Nýju lífi

Þóra Tómasdóttir, fyrrverandi dagskrárgerðarmaður í Kastljósi og blaðamaður á Fréttatímanum, var ráðin ritstjóri tímaritsins Nýs lífs í dag. Hún tekur við af Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur. Kolbrúnu var sagt upp störfum. Fleiri breytingar hafa orðið hjá útgáfufélaginu Birtingi, því Ragnheiður Kristjónsdóttir, ritstjóri Séð og heyrt sagði upp störfum í dag, samkvæmt heimildum Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×