Innlent

Handtekinn fyrir að skilja barn eftir í bíl

Alls hafa 22 bandarísk börn dáið úr hita í bílnum það sem af er þessu ári en í síðasta mánuði fór hitinn yfir 40 stig á þessu svæði.
Alls hafa 22 bandarísk börn dáið úr hita í bílnum það sem af er þessu ári en í síðasta mánuði fór hitinn yfir 40 stig á þessu svæði. Mynd úr safni
Íslenskur fjölskyldufaðir var handtekinn í Bandaríkjunum fyrir að skilja tveggja ára dóttur sína eftir sofandi í bíl í steikjandi hita. Hann kom heim í gærmorgun eftir að hafa verið í farbanni í New Jersey í þrjár vikur. Fréttastofa RÚV greindi frá málinu í gær.

Foreldrar stúlkunnar skildu hana eftir í bílnum á meðan þau fóru inn í verslun, ásamt eldri börnum sínum. Þegar þau komu út var búið að kalla til lögreglu enda ólöglegt að skilja börn eftir í bílum í Bandaríkjunum. Alls hafa 22 bandarísk börn dáið úr hita í bílnum það sem af er þessu ári en í síðasta mánuði fór hitinn yfir 40 stig á þessu svæði.

Í samtali við RÚV segir fjölskyldufaðirnn að heimska og hugsunarleysi hafi ráðið því að stúlkan var skilin eftir. Hann vildi annars ekki veita fréttastofu viðtal. Honum var sleppt úr fangelsi sama dag og hann var handtekinn gegn því að hann skildi vegabréf sitt eftir. Móðirin fékk að fara aftur til Íslands með börnin eftir viðtal við barnaverndaryfirvöld.

„Íslenski sendiherrann beitti sér í málinu og lýsti því í bréfi hvernig alsiða væri á Íslandi að láta lítil börn sofa úti á almannafæri, í barnavögnum og bílum. Niðurstaðan varð sú að saksóknari bauð föðurnum að láta málið niður falla ef hann játaði á sig ósæmilega hegðun á almannafæri og greiddi sekt," segir á vef RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×