Innlent

Sextán umferðaróhöpp á Selfossi í vikunni

Mynd/Vilhelm
Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Selfossi í vikunni og urðu slys á fólki í fjórum þeirra. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Tvennt var í bíl sem valt á Laugarvatnsvegi þann 1. ágúst síðastliðinn, hvorugt var í öryggisbelti og kastaðist eitt þeirra út. Þau voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur, en reyndust ekki alvarlega slösuð og voru seinna útskrifuð af sjúkrahúsi.

Bíll valt á Biskupstungnabraut við Kerið 2. ágúst síðastliðinn, en meiðsl reyndust minniháttar. Þó hlaut einn farþega aðhlynningu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Ökumaður bifhjóls missti stjórn á hjóli sínu á vinnusvæði á Laugarvatnsvegi í gær og var fluttur slasaður til Reykjavíkur.

Að lokum slasaðist maður sem lenti utan vegar og skall á umferðarmerki við gatnamót Skeiðavegar og Suðurlandsvegar í morgun.

Þá voru 23 teknir fyrir of hraðan akstur í embættinu í vikunni, en þar af tveir svo hratt að þeir verða sviptir ökuréttindum.
Annar þeirra mældist á 149 km/klst hraða og sætir eins mánaðar sviptingu en hinn mældist á 154 km/klst hraða og sætir þá tveggja mánaða sviptingu. Álagðar sektir vegna hraðakstursbrota í liðinni viku nema um 1.100 þúsundum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×