Innlent

Lækkun á heimsmarkaðsverði gæti skilað sér heim á næstu vikum

Mynd/Haraldur0,
Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir mögulegt að bensínverð á Íslandi lækki á næstu vikum, en lækkun hefur orðið á bensíni á heimsmarkaði undanfarna daga auk þess sem verðið á Bandaríkjadalnum hefur lækkað úr um 118 krónum í rúmar 115 krónur á síðustu tveimur vikum.

„Bensínið sem verið er að selja í dag var framleitt fyrir nokkrum vikum og það kostaði meira, þannig að það er alltaf svolítil seinkun á verðbreytingum." segir Magnús, en bendir þó á að bensínverð hafi lækkað um 4,90 krónur hjá olíufélaginu frá 3. ágúst.

Aðspurður hvort Íslendingar megi búast við lækkunum á næstu vikum, þegar ódýrara eldsneyti fér í sölu hér á landi segir Magnús „Ef þetta gengur eftir. Það er bara svo mikið að gerast á fjármálamörkuðum." Hann segir að enginn geti vitað hver þróunin verði í Evrópu, en að því gefnu að ástandið verði óbreytt eftir nokkrar vikur, þá komi verðið til með að lækka.

Bensínverð hefur lækkað hjá öllum olíufélögunum í mánuðinum; um 2,9 krónur hjá Olís, 4,9 krónur hjá Atlantsolíu, 5,3 krónur hjá Skeljungi, og 4,9 krónur hjá N1 eins og áður kom fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×