Innlent

Skoða niðurskurð á framlögum til kirkjunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir málið ekki snúast um aukinn niðurskurð á framlögum til Kirkjunnar.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir málið ekki snúast um aukinn niðurskurð á framlögum til Kirkjunnar.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skipað nefnd til að meta hvaða áhrif niðurskurður fjárveitinga hafi haft á starfsemi þjóðkirkjunnar og hverjar yrðu afleiðingarnar ef haldið yrði áfram á þeirri braut. Nefndin kom saman til síns fyrsta fundar á miðvikudaginn og mun skila áliti til ráðherra fyrir 1. maí á næsta ári.

Ráðherra segir að málið snúist ekki um frekari aðskilnað ríkis og kirkju. „Þetta er ekki hluti af því. Það er bara einfaldlega verið að kortleggja stöðuna. Við erum bara svona að horfa til þess og gerum það i tengslum við fjárlög. Það er augljóst að langvarandi niðurskurður hjá velferðarstofnunum og grunnstofnunum samfélagsins getur haft slæm áhrif,“ segir Ögmundur. Hann bendir þó á að niðurskurður sé ekki alltaf til ills. Hann geti stundum orðið til þess að mikilvægar skipulagsbreytingar séu gerðar.

Ögmundur býst ekki við því að aðrar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið. „Það er ekkert í kortunum sérstaklega. Við erum í nánum tengslum við stofnanir sem heyra rækilegar undir okkur en kirkjan,“ segir Ögmundur. Hann bendir á að kirkjan sé í reynd sjálfstæð stofnun þó hún heyri undir ráðuneytið. 

Formaður nefndarinnar sem mun skoða fjármál kirkjunnar er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×