Íslenski boltinn

Helga: Var búin að lofa mömmu að skora

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helga Franklínsdóttir átti magnaða innkomu í 2-1 sigri Stjörnunnar á Val í kvöld. Hún fiskaði vítaspyrnu og skoraði sigurmarkið í viðbótartíma.

„Já, þetta er kveðjuleikurinn minn. Ég er á leiðinni í nám í Bandaríkjunum. Ég var búinn að ákveða að kveðja með stæl og það gekk eftir í dag. Ég var búin að lofa mömmu að skora,“ sagði Helga.

Skömmu eftir að Caitlin Miskel var rekin út af var brotið á Helgu innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Helga segir dóminn hafa verið réttan.

„Já, hún fór í mig og ég hefði ekkert getað staðið þetta af mér.“

Valskonur voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Stjörnustelpurnar í raun ekki með.

„Ég held að það hafi verið mikið stress enda mikið í húfi. En við erum oftast betri í seinni hálfleik og það sýndi sig í dag.“

Markið kom í uppbótartíma. Írunn Þorbjörg Aradóttir sendi þá frábæran bolta á fjærstöng þar sem Helga skallaði boltann í netið.

„Ég er mikil skallamanneskja þannig að ef ég ætti að skora einhvern veginn væri það með skalla. Ég ætlaði að setja hann. Boltinn lenti á hausnum og fór í markið.“

Sigurinn tryggir Stjörnunni fimm stiga forskot á toppnum. Útlitið vægast sagt gott hjá Garðbæingum.

„Þetta er ansi ljúft en það er nóg eftir. Hver einasti leikur er mikilvægur. Sumir halda kannski að þessi leikur hafi verið mikilvægasti leikur sumarsins. Að sjálfsögðu voru toppliðin að berjast en það eru fleiri lið sem geta staðið í okkur líka.“

Helga er á leiðinni til náms í Bandaríkjunum. Leikurinn átti að vera hennar síðasti í sumar en hún útilokar þó ekki að spila fleiri leiki.

„Láki sagði við mig eftir leikinn að hann ætlaði ekki að leyfa mér að fara. Við verðum bara að sjá til,“ sagði Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×