Íslenski boltinn

Kristín Ýr: Langar ekki að endurtaka tap á móti KR eins og 2008

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir, framherji Vals, segir minni ríg milli kvennaliða KR og Vals frá því sem áður var. Hún segir leikinn á laugardag upp á líf eða dauða.

„Þetta er að mínu mati alltaf stærsti leikur sumarsins. Umgjörðin og allt í kring. Þetta er upp á líf og dauða.“

Kristín Ýr hefur leikið til úrslita í bikarnum sjö sinnum og þekkir bæði hve sárt er að tapa og sætt að vinna. Hún man vel eftir 4-0 tapi Vals gegn KR í bikarúrslitunum 2008.

„Já, sá ógleymanlegi leikur gegn KR 2008. Ég kom reyndar bara inn á en það var samt ömurlegt að tapa honum. Ég þekki það að tapa fyrir KR á þessum velli og mig langar ekki að endurtaka það.“

Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Vals, var í aðalhlutverki í bikarúrslitunum 2008. Hún skoraði þrennu í leiknum og var öðrum fremur lykillinn að bikarsigri KR.

„Það er mjög gott að hafa hana með sér í liði. Bæði Valsliðið og KR-liðið eru mjög breytt frá því í leiknum 2008. Það kemur nýtt blóð, nýir menn, nýir tímar og nýr sigur fyrir Val. Eigum við ekki að segja það?“

Kristín Ýr segir alltaf mikinn ríg milli Reykjavíkurliðanna KR og Vals. Rígurinn milli stelpnanna sé þó svolítið öðruvísi nú en hann var áður fyrr.

„Ég þekki miklu færri stelpur í KR-liðinu nú en þá. Það spilar svolítið inn í. Þá vorum við alltaf að mæta sömu stelpunum sem maður þekkti. Það er auðvitað tuð eins og í öllum leikjum. En við erum alveg vinkonur utan vallar. Svo eru náttúrlega stelpur eins og Berglind og Lilja sem voru í Val. Það er enginn rígur, bara smá inni á vellinum og svo er það búið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×