Innlent

Íslensk börn hreyfa sig of lítið

Níu ára íslensk börn hreyfa sig of lítið og þrek þeirra fer versnandi ef marka má niðurstöður nýrrar doktorsritgerðar í íþrótta- og lýðheilsufræði.

Kristján Þór Magnússon hefur nýlokið við doktorsritgerð sína um holdafar, hreyfingu og þrek 9 ára barna á Íslandi. Niðurstöðurnar byggir hann á mati á ástandi barna frá árinu 2003 og svo rannsókn frá árinu 2008, sem mældi árangur aðgerða sem hvatti börn til hreyfingu.

Kristján segir rannsóknina sýna að hreyfing níu ára barna árið 2008 hafi ekki verið eins mikla og árið 2003. Hann segist vera uggandi yfir þróuninni, hvatningaaðgerðir hafi ekki bætt ástandið eins og vonast var eftir.

„Þó svo að okkur hafi tekist að auka hreyfingu barnanna á skólatíma, þá varð það ekki til þess að börnin hreyfðu sig meira utan skóla eða um helgar"segir Kristján, en rannsóknarvinnan leiddi einnig í ljós að ákveðnir þættir í fari foreldra hafi áhrif á líkamsástand barnanna.

„Það virðist sem svo að þættir í fari feðra tengist frekar þreki barna, en aftur á móti ákveðnir þættir í fari mæðra tengist holdafari barna sem er svolítið áhugaverð pæling." En hvað er hægt að gera til að sporna við þessari þróun?

Aðspurður hvað sé hægt að gera til að sporna við þessari þróun segir Kristján: „Ég held að við þurfum öll sem samfélag að passa upp á börnin okkar. Að þau fái nægjanlega hreyfingu, hvort sem það er í skólanum eða utan skóla, og að við eyðum tíma með börnunum okkar og séum góðar fyrirmyndir. Það er svona gamla góða klisjan."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×