Innlent

Ekki hægt að útiloka frekari niðurskurð á Landspítala

Ekki er útilokað að stjórnendum LSH verði gert að skera meira niður en forstjórinn segir að nú sé komið nóg.
Ekki er útilokað að stjórnendum LSH verði gert að skera meira niður en forstjórinn segir að nú sé komið nóg.
Ekki er hægt að útiloka niðurskurð til Landspítalans þótt forstjórinn segi hingað og ekki lengra. Fagráðuneytin fá á næstunni ramma utan um fjárlög.

Unnið er að gerð fjárlagafrumvarpsins í fjármálaráðuneytinu en í næstu vikum fá ráðuneytin sérstaka ramma utan um fjárlög í sínum málaflokki sem þau vinna úr.  Fjárlagafrumvarpið á síðan að liggja fyrir 1. október næstkomandi.

Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, segir að komið sé að þolmörkum í niðurskurði hjá spítalanum. Skorið hafi verið niður um 8,6 milljarða króna frá árinu 2008. Það jafngildi 23 prósenta niðurskurði og spítalinn þoli einfaldlega ekki meira. Þá hefur starfsfólki spítalans fækkað um 11,5 prósent á undanförnu einu og hálfu ári.

Hefur velferðarráðherra sagt við þig í óformlegum samtölum að það þurfi að skera meira niður? „Nei, hann hefur ekki sagt þetta í óformlegum samtölum. Við höfum ekki rætt þetta, en ég hef rætt við ráðuneytið, síðast fyrir tveimur vikum, um þetta en ég held að flestir geri sér grein fyrir því þar hvaða afleiðingar frekari niðurskurður hefur,“ segir Björn.

Ekki náðist í Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra í morgun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en eins og komið hefur fram er rætt um eins og hálfs prósents niðurskurð í velferðarráðuneytinu. Ekki er ljóst hvort um flatan niðurskurð verður að ræða.

Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta útilokað niðurskurð til einstakra stofnana eins og Landspítalans. Hún sagði að þegar fjárlögin kæmu til kasta þingsins þá myndi nefndin kalla til sín forsvarsmenn einstakra stofnana, eins og forstjóra Landspítalans, til að fá skýringar frá þeim. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×