Innlent

Bæklingur gefinn út á sama tíma og könnun var framkvæmd

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík Mynd úr safni
Rio Tinto Alcan gaf út viðamikinn upplýsingabækling um fyrirtækið á sama tíma og Félagsvísindastofnun stóð fyrir könnun á viðhorfi Hafnfirðinga til álversins. í könnunninni kemur fram að meirihluti Hafnfirðinga vill ekki stækkun álversins þrátt fyrir kreppu.

Hafnfirðingar fengu bæklinginn inn um lúguna í byrjun maí. Bæklingurinn fjallar um starfsemi álversins og er óhætt að segja að ekki sé brugðið upp neitt sérstaklegra dökkri mynd af fyrirtækinu.

Á sama tíma og bæklingnum var dreift í hvert einasta hús í Hafnarfirði stóð Félagsvísindastofnun fyrir símakönnun sem var hluti af viðamikilli viðhorfsrannsókn á skoðun bæjarbúa á álverinu í Straumsvík og afstöðu þeirra til mögulegrar stækkunar þess.

Könnunin var fjármögnuð af Hafnarfjarðarbæ og Rio Tinto Alcan.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að meirihluti Hafnfirðinga væri mótfallinn stækkun álversins. Var það byggt á spurningu þar sem fram kemur að yfir 50% Hafnfirðinga vilja láta staðar numið eftir 20% framleiðsluaukningu álversins, sem stendur nú fyrir dyrum.

Þetta var upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan ósáttur við og sagði í bréfi til fréttamanns fréttaflutninginn ósanngjarnan. Hann benti á að í könnunni komi fram að um 60% hafnfirðinga myndu samþykkja stækkun væri gengið til kosninga nú, samkvæmt könnunni.

Taka þarf þó með í reikninginn að meirihluti þeirra sem valdist í úrtakið greiddi atkvæði með stækkun álversins í síðustu íbúakosningum.

Þá tölu er þó áhugavert að skoða í því ljósi að meirihluti þeirra sem tók þátt í könnunni greiddi atkvæði gegn stækkun í síðustu íbúakosningum í Hafnarfirði.

Athugasemd uppfært (20:14):

Ekki er rétt að bæklingur Rio Tinto Alcan hafi komið út á sama tíma og könnunin var gerð. Bæklingurinn kom út þann 17. maí á vef Rio Tinto Alcan og var síðan send almenningi. Gerð könnunar Félagsvísindastofnunar lauk þann 10. maí.

Fullyrðing fréttamanns var byggð á misskilningi í samtali við upplýsingafulltrúa Rio Tinto Alcan, Ólaf Teit Guðnason og biðst fréttamaður afsökunar á þessum mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×