Innlent

Gróðursetja ávaxtatré í íslenskum almenningsgörðum

Lilja Oddsdóttir, formaður Ávaxtar.
Lilja Oddsdóttir, formaður Ávaxtar.
Áhugamenn um ávaxtatrjárækt hyggjast gróðursetja um tvöhundruð ávaxtatré í almenningsgörðum hér á landi áður en árið er á enda. Möguleikarnir á ávaxtaræktun hér á landi eru fleiri en flestir halda.

Lilja Oddsdóttir er formaður Ávaxtar, áhugamannafélags um ræktun ávaxta á Íslandi, sem stefnir nú á að gróðursetja um 200 eplatré, eða önnur ávaxtatré, t.d. kirsuberja- og perutré, í almenningsgörðum áður en árið er á enda. Lilja segir þetta auka sjálfbærni landsmanna og að fátt sé huggulegra en að grípa með sér ávöxt á förnum vegi.

„Eftir því sem það eru fleiri tré, því meiri líkur eru á að þau gefi af sér. Ef það eru bara tvö tré og eitthvað kemur fyrir, náttúran er eitthvað erfið, þá eru meiri líkur á að það verði engin uppskera. Annars geta komið allt að þúsund epli á eitt tré.

Aðspurð hvort ekki sé mikil vinna á bak við svona ræktun segir Lilja: „Náttúran sér um sig, hún sér um að frjóvga plönturnar og síðan, ef það eru of mörg epli á trénu þá detta þau af og svo bara vaxa þau í sólskininu. Það er sólin og vatnið og hreina loftið sem skiptir máli."

Lilja lætur ekki staðar numið og bendir á að svona ræktun geti borið ávöxt í framtíðinni fyrir allt þjóðarbúið. „Þetta er möguleiki fyrir Ísland að verða framleiðendur í ávaxtarækt."

Ávöxtur hefur hafið sölu á barmmerkjum til að fjármagna verkefnið, en nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×