Innlent

Steindi Jr. hleypur til styrktar Rauða krossinum

Grínistinn Steindi Jr. er búinn að skrá sig í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og ætlar að hlaupa til styrktar Rauða krossinum. Steindi er óvanur hlaupum, svo vægt sé til orða tekið, og skráði hann sig því í skemmtiskokkið sem er þrír kílómetrar.

Fyrsta æfingin var í dag og gekk heldur brösulega, en Ísland í dag fékk að fylgjast með tilþrifunum. Brot úr þætti kvöldsins má sjá í meðfylgjandi myndskeiði þar sem greinilegt er að Steindi þarf nokkuð að herða sig við æfingarnar, en maraþonið fer fram laugardaginn 20. ágúst.

Steindi er ekki búinn að skrá sig á Hlaupastyrkur.is en gerir það síðar í dag, og verður þá hægt að heita á hann.

Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka laugardaginn 20. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara með því að smella á hlaupastyrkur.is. Öll áheit félagsins í Reykjavíkurmaraþoninu munu renna í Sómalíusöfnun Rauða krossins til kaupa á bætiefnaríku hnetusmjöri fyrir vannærð börn.

Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Á næstu vikum og mánuðum munu Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn veita um 50.000 börnum aðstoð á næringarmiðstöðvum hreyfingarinnar, og dreifa matvælum til um einnar milljónar manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×