Innlent

Guðlaugur Þór: Stjórnvöld brutu lög

Stjórnvöld brutu lög þegar þau höndluðu sjálf eignarhlut sinn í SpKef og Byr í stað þess að láta Bankasýslu ríkisins hafa umsjón með málunum, segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Bankasýslan hafi sjálf búist við að halda utan um hlut ríkisins í fyrirtækjunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, segir ekki stjórnvöld ekki hafa farið með eignarhlut sinn í SpKef og Byr líkt og lög gera ráð fyrir.

Í lögum um Bankasýslu Ríkisins segir að Bankasýslan skuli fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Þá segir í skýrslu bankasýslunnar frá árinu 2010 að ef til þess komi að ríkissjóður eignist annan eða báða sparisjóðina að fullu eða hluta muni Bankasýslu ríkisins verða falið að fara með eignarhaldið.

„Steingrímur J. Sigfússon ákvað að hafa þetta hjá sér. Þetta var hjá stjórnmálamönnum en ekki stofnuninni eins og lög gera ráð fyrir."

Guðlaugur Þór segir það því augljóst að bankasýslan hafi átt að fara með hlut ríkisins í Spkef og Byr.

„Það er enginn vafi að það hefði verið skynsamlegra og eðlilegra af mörgum ástæðum að fara að lögunum. Að sú stofnun sem á að hafa mesta þekkingu á þessu sviði hefði haldið utan um hlutinn."

Hann segir málið nú komið í annan farveg þar sem Spkef sé nú hluti af landsbankanum og verið sé að einkavæða Byr.

„Ég veit eiginlega ekki hvað á að gera þegar fjármálaráðherra fer ekki eftir þeim lögum sem hann mælti fyrir sjálfur og samþykkti. Þetta eru landslög, það stendur skýrt að bankasýslan á að sjá um þetta en við erum í svo skrýtnu ástandi í þjóðfélaginu í dag að þetta þykir bara hið eðlilegasta mál þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á í hlut."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×