Innlent

Staða aðalsjóðs Reykjavíkurborgar versnar enn

Jón Gnarr lagði fram frumvarp til þriggja ára áætlunar í dag.
Jón Gnarr lagði fram frumvarp til þriggja ára áætlunar í dag.
Áætlað er að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs Reykjavíkurborgar verði neikvæð næstu þrjú árin, og fari úr því að vera -2,9 milljarðar samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2011, og í rúmlega -4,6 milljarða árið 2014.Á ætlað er að eignir aðalsjóðs dragist saman á tímabilinu um 20,3% og verði í lok þess 58,5 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í frumvarpi að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2012-2014 sem Jón Gnarr, borgarstjóri, lagði fram á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag.

Hægt er að kynna sér áætlunina í heild sinni hér.

Frumvarpið byggir á endurskoðaðri fjárhagsáætlun A-hluta fyrir árið 2011 og endurskoðaðri áætlun Orkuveitu Reykjavíkur. Við gerð þess er í öllum aðalatriðum fylgt sömu aðferðafræði og viðhöfð hefur verið við tvær síðustu þriggja ára áætlanir.

Nýir kjarasamningar og margvíslegar breytingar á tekju- og útgjaldahlið borgarsjóðs kallar á mikla vinnu við endurskoðun á forgangsröðun fjármuna sem unnið er að um þessar mundir. Niðurstaða þeirrar vinnu mun birtast við framlagningu á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2012 og fimm ára áætlun 2012-2016.

Síðari umræða og afgreiðsla þriggja ára áætlunar fer fram í borgarstjórn 17. ágúst 2011.

Þriggja ára áætlunin er undirbúin og lögð fram í skugga mikillar óvissu um þróun í efnahags- og atvinnumálum til næstu ára og hefur það ástand verið viðvarandi frá árinu 2008.


Tengdar fréttir

Segir ekkert lagt í þriggja ára áætlun meirihlutans

Aukafundur hefst í Borgarstjórn Reykjavíkur klukkan tvö í dag en minnihlutinn óskaði eftir því að fundurinn færi fram. Á fundinum mun meirihlutinn leggja fram þriggja ára fjárhagsáætlun eins og skylt er að gera, en það hefur dregist frá því í febrúar.

Hanna Birna: Óafsakanlegt að skila of seint

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir það grafalvarlegt og algjörlega óafsakanlegt að svo stórt sveitarfélag sem Reykjavíkurborg er, sinni því ekki að lögum og reglum með þeim afleiðingum að borgaryfirvöldum er hótað því að viðurlögum verði beitt ef ekki verði bætt úr hið fyrsta. Aukafundur í borgarstjórn, sem minnihlutinn boðaði til, hófst klukkan tvö og voru borgarfulltrúar kallaðir úr sumarleyfi til að mæta á fundinn. Ástæðan er sú að tæplega hálft ár er liðið síðan Reykjavíkurborg átti að skila inn þriggja ára fjárhagsáætlun og hefur borgarstjórn borist bréf frá innanríkisráðuneytinu þar sem gefinn er frestur til 18. ágúst til að skila áætluninni, ella verði gripið til aðgerða.

Gagnrýnin er aukinn vindur í seglin

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, segir gagnrýni minnihlutans á vinnu meirihlutans við þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar blása auknum vindi í seglin í þeirri vinnu. Hann bendir á að frágangur áætlunarinnar hafi tafist vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar, og þar af leiðandi óvissu um fjármögnun málaflokksins. Þetta hafi öllum verið kunnugt um svo mánuðum skiptir. Tæplega hálft ár er síðan borgin átti að skila áætluninni og hefur innanríkisráðuneytið hótar viðurlögum ef henni verður ekki skilað fyrir 18. ágúst. Nú stendur yfir aukafundur í borgarstjórn þar sem borgarfulltrúar voru kallaðir úr sumarleyfi til að ganga frá áætluninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×