Íslenski boltinn

Lilja: Svekkjandi að fá á sig mark svona snemma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lilja Dögg Valþórsdóttir, fyrirliði KR, var stolt af sínu liði þrátt fyrir 2-0 tap á móti Val í bikaúrslitaleik kvenna á Laugardalsvellinum í dag. KR-liðið sem fékk á sig mark snemma leiks var óheppið að jafna ekki leikinn í lok fyrri hálfleiksins en KR-stelpur réðu síðan lítið við Valsliðið í þeim seinni.

„Ég var eiginlega ekki tilbúin í að fara inn í hálfleikinn því ég vildi helst að fyrri hálfleikurinn myndi halda áfram því mér fannst við vera komnar með það góða pressu á þær að við myndum ná að setja á þær eitt mark," sagði Lilja um endakaflann á fyrri hálfleiknum.

„Við náðum ekki að gíra okkur upp í seinni hálfleiknum eins og í fyrri hálfleiknum. Það var fyrst og fremst svekkjandi að fá á sig mark svona snemma og ná síðan ekki að setja hann í fyrri hálfleiknum," sagði Lilja.

„Eins og það var búið að benda margoft fyrir leikinn þá vorum við að spila á móti liði sem var með mikla reynslu í svona leikjum en við vorum tiltölulega óreyndar. Ég er bara stolt af stelpunum og mér fannst við eiga í fullu tré við þær," sagði Lilja.

„Við náðum ekki að stýra okkur inn í seinni hálfleikinn eftir að hafa endað þann fyrri mjög sterkt. Ég veit ekki hvort það sat í okkur eitthvað svekkelsi að hafa ekki náð að setja hann þar eins og okkur fannst við eiga skilið. Því miður vorum við ekki alveg á tánum í seinni hálfleiknum," sagði Lilja en nú er framundan hjá KR að bjarga sér frá falli úr Pepsi-deildinni.

„Við gleymdum bara deildinni á meðan að þetta var í gangi. Við höfum gaman af þessu og núna höldum við bara áfram. Þetta var bara bónus, vonandi tökum við fyrri hálfeikinn hér með okkur inn í næsta leik því við vitum alveg hvað við getum," sagði Lilja en þá má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×