Íslenski boltinn

Valskonur bikarmeistarar þriðja árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson á Laugardalsvelli skrifar
Mynd/Valli
Valskonur eru bikarmeistarar þriðja árið í röð og í þrettánda skiptið frá upphafi eftir 2-0 sigur á KR í úrslitaleik Valitors-bikarsins á Laugardalsvellinum í dag.

Reynsluboltarnir Rakel Logadóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir skoruðu mörk Valsliðsins í leiknum og Meagan McCray hélt marki sínu hreinu eins og í öllum hinum bikarleikjum liðsins í sumar.

Valsliðið fékk draumabyrjun og komst yfir á 3. mínútu, KR-liðið vann sig inn í leikinn og endaði fyrri hálfleikinn vel en í seinni hálfleik var aldrei vafi um að bikarinn væri á leiðinni á Hlíðarenda.

KR-konur vissu að þær þurftu að byrja vel til þess að eiga möguleika en svo fór nú ekki. Caitlin Miskel fékk dauðafæri eftir fyrirgjöf Rakelar Logadóttur eftir rúma mínútu og á næstu mínútu var staðan orðin 1-0.

Rakel Logadóttir skoraði þá með skoti úr teignum eftir flottan undirbúning Hólmafríðar Magnúsdóttur. Hólmfríður fór illa með hægri bakvörð KR-liðsins og lagði hann út í teiginn á Rakel sem átti ekki í miklum vandræðum með að skora.

Það bjuggust eflaust allir við að eftirleikurinn yrði auðveldur fyrir Valsliðið eftir slíka draumabyrjun en KR-stelpurnar voru hinsvegar lausar við skrekkinn og áttu síðan eftir að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn.

Hólmfríður Magnúsdóttir fékk reyndar tvö ágæt færi eftir hraðar sóknir Vals en þegar á leið hálfleikinn datt allt spil úr leik Valsliðsins og það nýttu Vesturbæingar sér vel.

KR-konur fengu meira sjálfstraust með hverri mínútu og á lokamínútum hálfleiksins voru þær nokkrum sinnum mjög nálægt að jafna leikinn sérstaklega eftir stórhættulegar hornspyrnur Sigrúnar Ingu Ólafsdóttur.

Valskonan Kristín Ýr Bjarnadóttir fékk reyndar tvö úrvals skotfæri í teignum á þessum kafla en bæði skotin hennar voru keimlík og fóru framhjá fjærstönginni. Hlutirnir féllu ekki alveg fyrir Kristínu í hálfleiknum því hún skoraði líka mark sem réttilega var dæmt af vegna rangstöðu.

Í stað þess að gera út um leikinn með því að skora úr þessum ágætu færum gátu Valskonur síðan þakkað fyrir að vera enn yfir þegar þær gengu til hálfleiks.

Valsiðið náði að endurskipuleggja leik sinn í hálfleiknum og það var allt annað að sjá til þeirra í upphafi seinni hálfleiksins.

Kristín Ýr Bjarnadóttir átti bæði langskot í stöngina og skot framhjá úr dauðafæri áður en henni tókst loksins að skora og koma Val í 2-0 59. mínútu. Kristín Ýr skallaði þá boltann glæsilega í markið eftir flotta fyrirgjöf frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

Kristín Ýr var nærri því búin að skora annað skallamark þremur mínútum síðar en Petra Lind Sigurðardóttir varði mjög vel í KR-markinu.

Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari KR, gerði strax tvær breytingar eftir að Valur komst í 2-0 en það breytti litlu og Valskonur voru með þetta í hendi sér það sem eftir var leiksins.

Hér fyrir neðan má hjá textalýsingu frá blaðamanni Vísis á vellinum.

KR - Valur 0-2

Mörkin:

0-1 Rakel Logadóttir (3.)

0-2 Kristín Ýr BJarnadóttir (59.)

Tölfræðin:

Skot (á mark) 11-18 (6-8)

Varin skot: Petra Lind 6 - Meagan 5

Horn: 6-2

Aukaspyrnur fengnar: 14-7

Rangstöður: 1-4






Fleiri fréttir

Sjá meira


×